Hvað þarf hafa í huga þegar valinn er LED búnaður?

Staðsetning, tegund og sýnileiki

Verður skjárinn staðsettur inni eða úti? Þarf hann að sjást vel úr mikilli fjarlægð eða þarf að sýna smátt letur þegar horft er nálægt?

Búnaðurinn getur verið mjög mismunandi eftir verkefnum og verðið þar af leiðandi einnig.

Þarf hefðbundinn LED búnað eða gegnsæjan sem hleypir birtu í gegn og hentar vel í glugga?

Við aðstoðum þig við að velja rétta búnaðinn til að halda kostnaði í lágmarki.

Birtustig

Birtustig er mikilvægur þáttur þegar kemur að LED búnaði, sérstaklega þegar skjárinn er staðsettur í umhverfi þar sem lýsing getur verið breytileg.

Innandyra

Birtustig innandyra er oftast ekki vandamál og er yfirleitt stöðugt allt árið um kring. Hins vegar geta stórir gluggar flækt málin þar sem náttúruleg birta getur breyst mikið yfir daginn.

Utandyra

Skjárinn þarf að vera mjög bjartur svo myndefnið sjáist vel í beinu sólarljósi. Við þekkjum öll vandamálið þegar sólin skín beint á sjónvarpstæki og það sést ekkert. Einnig þarf búnaðurinn að geta aðlagað sig sjálfvirkt eftir því hversu bjart er úti. Það er mjög truflandi að keyra framhjá skiltum sem eru of björt þegar dimmt er úti. Svipað og að mæta bíl með háu ljósunum á. Það er mikilvægt að tryggja að slíkt gerist ekki.

Búnaður utandyra

Þarf að þola íslenskt veðurfar og vera sérstaklega vatnsheldur. Mikilvægt er að búnaðurinn þoli seltu þar sem byggð í kringum Ísland er nálægt sjó og götur eru saltaðar yfir veturinn.

Við fáum einnig reglulega yfir okkur eldfjallagufur sem geta flýtt fyrir oxun í rafbúnaði og skapað sambandleysi.

Til að tryggja mesta endingu á búnaði sem þarf að vera í gangi allan sólarhringinn utandyra, mælum við með að díóðurnar séu víraðar með gulli frekar en kopar. Gull oxast ekki eins og kopar og minnkar því líkur á sambandleysi.

Ef þessi atriði hér að ofan eru ekki höfð í huga, þá geta komið upp óvænt vandamál reglulega. T.d ljótar litaskellur sem eru allt of algengar á mörgum a skiltum.

Mikilvægt er að tryggja að öll leyfi séu til staðar hjá bæjarfélaginu. Það er mjög leiðinlegt að þurfa að taka niður dýran búnað vegna þess að það vantaði byggingarleyfi.

Fjarlægð frá skjánum

LED búnaður er samsettur af mörgum litlum díóðum. Ef áhorfandinn stendur nálægt, þá þarf þéttleikinn að vera meiri.

Ef fjarlægðin frá skjánum er töluverð, þá er hægt að hafa meira bil milli díóðanna. Díóðuþéttleiki (pixel pitch) getur því verið mismunandi milli verkefna.

Verðið á búnaðinum hækkar eftir því sem þéttleikinn er meiri.

Ytri aðstæður - Högg og rispur

Ef búnaðurinn þarf að vera í lítilli hæð, þá er stundum nauðsynlegt að verja skjáinn gegn höggum og rispum. Þótt það sé lítið mál að skipta um skemmda einingu, þá fylgir takmarkaður fjöldi varaeininga með hverri sendingu.

Aukahlutir

LED skjár er samsettur af einingum sem geta haft mismarga módúla. Hver módúll getur haft þúsundir díóða, en það fer eftir þéttleikanum.

Þónokkuð af varahlutum fylgir með öllum pöntunum. Þótt búnaðurinn sé mjög góður þá geta komið upp óvæntar bilanir eða búnaðurinn orðið fyrir hnjaski.

Mikilvægt er að allar LED módúlar séu úr sömu framleiðslu, annars getur komið fram litamunur.

Vottanir

Tryggja þarf að allar helstu vottanir séu til staðar, t.d. CE, EMC og RoHS. Búnaðurinn sem við bjóðum upp á er með allar helstu vottanir.

Þeir sem setja upp svona búnað þurfa að hafa hlotið rétta þjálfun frá framleiðanda.

Mikilvægt er að rafvirki taki þátt í uppsetningum til að tryggja réttan frágang. Þetta er töluvert flóknara en að setja lampa í samband. Einn eða fleiri rafvirkjar taka þátt í öllum verkefnum hjá Snjallveggjum.